Fat boy on a diet don't try it

Að vera hræddur er kjánalegt.
Tommy L. Jones 2004

Þegar maður er feitur er maður hræddur við margt. Ég veit alveg að ég var eitthvað búinn að tala um hræðsluna (í blogginu um hverjir eru kostir og gallar við að vera feitur) en mig dauðlangar að skrifa um eitthvað en vissi bara ekki hvað það ætti að vera.
Það sem ég er hræddur við og hvers vegna:

- Að fara á hestbak. Ég kem utan af landi þar sem sjálfsagt er að allir fari á hestbak. Ég vill ekkert vera að meiða hestana. Ég er mjög þungur og ætla ekki að fara að vera þess valdandi að hrossin meiði sig bara útaf því að ég hef gaman að því að fara á hestbak, ég get alveg notað bílinn.

- Að fara að máta/versla föt. Díses hvað það er erfitt að drulla sér í það. Höfnunartilfinningin sem kemur þegar maður finnur EKKERT sem maður getur notað er kjánalega vond.

- Að vera litinn hornauga. Td. á veitingastöðum. Stundum finnst manni einsog fólk sé að dæma mann ef maður er að éta hamborgara og franskar þegar maður er svona feitur einsog ég er. Ég veit alveg að ég á að fá mér fisk og kjúkling en hamborgarar eru mitt uppáhald. Það eru örugglega ekkert allir að horfa á mig en mér finnst það samt.

- Að kaupa nammi. Yet again, ég veit alveg að ég á ekkert að vera að éta nammi. En mig langar til þess, það er eitthvað í mér sem segir mér að gera það. Ég ímynda mér alltaf að afgreiðslufólkið sé að gera grín af mér því ég er feitur að kaupa nammi og kók. Mega vond tilfinning.

- Að brjóta stóla. Ég er skíthræddur við þetta. Það er fátt vandræðalegra en að vera feitur gaur og brjóta stól, en aftur á móti fátt fyndnara en að sjá feitan gaur detta. Stundum stend ég bara frekar en að taka sénsinn, svona einsog með ódýra garðstóla.

- Að sjást hlaupa. Stundum lendum við feita fólkið í því að vera og sein og þurfum þá að "spretta úr spori". Það er fyndið að sjá okkur hlaupa en alveg einstaklega vandræðalegt. Ég hleyp helst aldrei (enda sést það á mér).

- Að sjást éta í veislum. Sumir kannski eru ekkert hræddir við þetta en ég er það. Ég hef ekkert gott af þessum kökum sem ég er að hrúga á diskinn minn en ég geri það samt, ég er að gefa gjöf hérna þannig að ég ætlast til að fá eitthvað í staðinn!

- Að setjast uppí bíl sem ég hef ekki sest uppí áður. Úff, það er svo vandræðalegt þegar beltin passa ekki utanum. Það er það versta. Ógeðslega vandræðalegt fyrir alla.

- Að fara á tónleika. Mér finnst ég alltaf vera fyrir hinum útaf því að ég er tek alveg pláss á við 2,5.

- Að ferðast með flugvél eða rútu. Það er mjög erfitt. Þegar ég er farinn að pæla í því hvort ég sé orðinn það feitur að ég þurfi framlenginu á beltið eða kaupa 2 sæti þá er kominn tími til að skoða sín mál.. hefði maður haldið. En ég leyfi þessu bara að gerast. Ég pæli í þessu í hvert skipti sem ég flýg eða tek rútu en það hefur sem betur fer sloppið hingað til.

- Að fá hjartaáfall eða sykursýki. Er í miklum áhættuflokki á að fá sykursýki bara útaf þyngdinni. Ég ét svo feitan mat að ég yrði ekkert hissa á að ég fengi kransæðastíflu.

Eiginlega mætti segja að ég væri bara hræddur við lífið og að tapa því. Hræddur við það sem ég er orðinn og hræddur við það sem ég gæti orðið ef ég fer ekki að athuga mín mál. Ég er hræddur við að leita mér hjálpar og ætla þessvegna að gera þetta bara sjálfur. Mér hefur verið illa við að þyggja aðstoð frá öðrum sem hafa verið fúsir til að hjálpa útaf því að ég vill ekki valda neinum vonbrigðum. Mér er alveg sama þó að ég bregðist sjálfum mér, gæti ekkert liðið neitt verr hvort eð er.

Better check yourself before you wreck yourself!

Laters


Out of control

Stærðin skiptir víst máli!
-Rihanna '09

Það er erfitt að borða aldrei nammi. Eða mér finnst það allavega. Maður reynir að réttlæta nammiátið með því að maður labbaði í sjoppuna eða búðina. Réttlæta rjómasósuna því að þú steiktir kjúllann ekki uppúr smjöri. Það virkar samt bara ekki þannig. Það má ekkert drekka íssósuna (ég hef gert það) bara útaf því að ísinn er búinn og þú hefur ekkert að gera við restina af sósunni.

Það er ekkert hægt að réttlæta það að éta óhollt. Þetta er bara eitthvað sem við gerum. En af hverju er feitt fólk að éta svona mikið óhollt? Ég hef ekki hugmynd um það en væri alveg til í að vita af hverju. Erum við svona gráðug? Erum við með öðruvísi bragðlauka sem lætur okkur hata grænmeti?
Úff, ég veit það ekki. Virkar of mikið vesen að fara að breyta um lífsstíl núna. Er búinn að vera í þessu hugarfari í mörg ár.

Ég veit alveg af þeim hættum sem stafa af því að vera of feitur. Hjartaáföll og sykursýki og allt það en það sem mér finnst verst og ég hef lesið um á netinu, að karlmenn sem glíma við mikla offitu týna á sér typpinu. Það væri skelfilegt ef það gerðist! Þyrfti maður þá að setjast til að míga? Eða bara fara í sturtu?! Nei, við það að lesa þetta þá ákvað ég að taka mig á og hér eftir verður þetta breytingablogg. Ég er hættur að drekka íssósur, taka lyftur uppá aðra hæð, éta kfc og ætla að fara að hreyfa mig.

Grannt fólk sem ég þekki er ekkert að éta neitt brjálað hollt. Það er bara að borða venjulega, stundum óhollt og stundum hollt og það hreyfir sig reglulega. Það er það sem ég ætla að gera. Ég ætla ekki á einhverja kolvetnakúra, danska, sænska eða einhverja álíka asnalega kúra. Ég ætla að standa upp úr þessum fjandans sófa og hætta að vera fastagestur í símanum hjá Dominos.
Ég ætla ekki að týna typpinu á mér!

Over and out!


I want to break free, want to break free from this lifestyle

"Að vera feitur og glaður er jafn líklegt og ég myndi breytast í jarðaber"

Tom Selleck 1997

Ætla að týna saman nokkra kosti og galla við að vera feitur meðan ég drekk föstudagsbjórinn (sem ég ætti ekkert að vera að gera því bjór er mega feitur).

Gallar:

Þú kemst illa í venjuleg föt. 


Það er glatað að reyna að finna sér föt í venjulegum búðum. Dressman, Herragarðurinn og meira að segja Vinnufatabúðin eru ekki með neitt á mig (og vonandi fleiri hér á landi, held í vonina um að ég sé ekki feitastur hérna). Það er mega vandró að skoða "Stórar Stærðir" og "Góðar stærðir" í Hagkaup og sjá svo alla aðra feitu kallana í alveg eins fötum.

- Hræðsla.

Við hvað geta svona stórir menn orðið hræddir? Jú, það er ýmislegt. Sér fólk bumbuna ef ég teygi mig hérna uppí efstu hillu til að ná í industrial stærðar snakkpokana? Brýt ég þennan stól ef ég sest í hann? Passar öryggisbeltið á mig (bæði í flugvélum og bílum)? Sést í rassinn ef ég beygji mig (við erum asnalegir í laginu og það er erfitt að halda þeim uppi! Jafnvel með belti!)?

- Umtal.

Ég vill ekkert að fólk sé að tala um mig. Ég vill ekkert að fólk sé að tala um hvað ég er að kaupa í búðinni, hvað ég er að éta á American Style eða hvort ég kaupi fötin hjá Seglagerðinni. Mér er meinilla við það að fólk sé að tala um hvað það vorkennir mér fyrir að vera svona feitur og að þetta sé bara sjúkdómur. Þetta er ekkert sjúkdómur, þetta er bara leti!

- Framtíðin.

Verð ég svona alltaf? Ætla ég ekkert að hætta að vera feitur? Dey ég snemma? Eignast ég börn eða er sæðið mitt of feitt til að synda? Ef mér tekst að setjann inn og einn vinurinn ratar rétta leið, hvernig foreldri verð ég? Gef ég krökkunum sama mat og ég er að éta til að það verði eins ógeðslegt og ég (big surprise, ég er með óbeit á sjálfum mér og hvernig ég lít út)? Ég vill ekkert eignast krakka bara til að gera hann feitann líka.

Og svo mætti lengi telja. Ég nenni bara ekki að telja upp allt því gallarnir eru endalausir.

 

En svo að því skemmtilega! 
Kostir:

Maturinn.

Kfc, Pizza Hut, Hamborgarar, kók, bjór eða hvað sem er sem er óhollt. Við getum étið þetta allt á einu kvöldi en það skiptir ekki máli, það sér enginn dagamun á okkur! Ég er allavega alltaf jafn vansæll þó að ég éti Dominos eða spergilkál en ég veit allavega að Dominos er mega gott!

Ég flýt.

Ég er ógeðslega góður í því að láta mig fljóta. Ég sekk bara ekki, ekki séns. Ég tók það samt bara með sem kost þar sem ég finn engan annan..

 

 

Gallarnir við að vera feitur eru fleiri en kostirnir. Þeir eru miklu, miklu fleiri en ég taldi upp. 
Spurning hvort maður fari að skoða sinn gang eftir þetta.. 

 

.. Ég sé til eftir þennan bjór. Skál og góða helgi!

Kv. Feiti



Allt sem þú lest er lýgi

"Ég er feitur maður" 

Jack Black 1999.

Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér Jack Black ekkert feitur. Hann lítur út einsog bara venjulegur 100 kílóa maður. Hann getur sparkað hátt og getur keypt fötin sín í Dressman. Ég hinsvegar er þónokkuð þyngri en það (sem ég held að Jack sé þungur). Þegar ég mældi mig síðast var ég 175kg. Ég er ekki öryrki, ég er ekki veikur útaf þyngdinni minni og eini kvillinn sem ég þjáist af er vöðvabólga og leiðinda sinadrættir (betri en engir drættir (elsti brandari í heimi örugglega)). Þetta er bæði eitthvað sem skrifast á ofþyngd og hreyfingaleysi en hvað geri ég? Ég ligg samt heima eftir vinnu og borða illa þegar ég á að vera að fara út að labba og borða einsog Solla í grænum osti. Þessi helvítis leti sem þjakar mann eftir vinnu er að drepa mann. Ég er duglegur í vinnu og vel liðinn einsog svo margir bræður mínir og systur sem þjást af offitu. Ég meina, þekkir þú einhvern feitan sem leggur sig fram í því sem hann gerir? Öööö, jú, og svo þekkir þú líka feitu haugana sem nenna ekki að standa upp til að svara í símann. En það eru líka til grannir haugar og grannt fólk sem að er rosalega duglegt. 
Ég dáist að duglegu fólki og vildi að ég væri einn af þeim, ég virkilega vill það. En það er eitthvað í mér sem bara gerir það ekki. Það má alltaf reyna meira og reyna fastar en svo kemur einhver punktur þar sem ég bara brotna og nenni ekki meir. Það er minnsta mál að hjálpa hinum og þessum að gera þetta og hitt en svo er annað mál að drulla sér út að labba eða í ræktina þar sem allir stara á mann einsog maður sé hvítur maður að týna bómul (já, mér finnst þetta líka racist samlíking en mér er alveg sama, mér finnst ég jafn óvelkominn í ræktina með fallega fólkinu fyrir það).

Þá kem ég að stóru spurningunni; Er einfalt að léttast?
Kenningin segir já. Þú þarft bara éta rétt og hreyfa þig.
Líkaminn minn segir já því lets face it, líkaminn vill ekki deyja strax, hann er gerðut til að endast í 100 ár. Ætti ég þá ekki að geta hreyft mig?! Jú!
En hvað gerist? Ef ég vissi það væri ég ekki svona ógeðslega, já, ógeðslega feitur. Ég á ofboðslega góða vini og fjölskyldu sem hafa bent á það að ég sé of feitur (newsflash) og finnst mér gott að vita af því að þeim þykir vænt um mig en ég fæ mér samt ekki salat á Subwayinn minn. Ég vill ekkert deyja fyrir aldur fram frá þessu fólki sem þykir vænt um mig og ég elska en það er örugglega einhver sjálfseyðingarhvöt í hausnum á mér. 

Ég ss. er ofboðslega þungur og þegar maður lítur svona út og getur ekki labbað uppá 3ju hæð án þess að fá í lungum þá líður manni ekki vel. Þó að við feita fólkið séum voða djollí og happý þá erum við það ekki. Eða, ég hef ekki hitt það ennþá. Það er enginn sáttur við að vera feitur. Fólk getur alveg "sætt" sig við það en það gerir það samt ekki, það er bara að ljúga að sér. 

Einsog er þá er ég í minnihlutahópi en hversu lengi verður það? Hvenær verðum við feita fólkið fleiri en það granna? Mig langar ekki að sjá þannig heim, það var nóg að sjá það í WallE. Ég vill ekki að mínir krakkar lendi í því sama og ég.

Í þessu bloggi ætla ég að tala um offitu. Aðalega offituna mína og mig langar að tala við annað feitt fólk, heyra hlutina frá öðrum og bara sjá hvernig fólk sér sjálft sig. Ég er að vona að þegar ég er búinn að skrifa þetta og skrifa meira og heyra í öðrum að ég sjái að mér og að ég fari að lifa lífinu. Ég er bara milli tvítugs og þrítugs og það er glatað að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort ég sé að detta í sykursýki bráðlega. Þetta er ekkert líf og það er ekki hægt að vera sáttur í svona líkama.

 

En þangað til kannski næst
Feitikallinn


Höfundur

Jóhann Pétur
Jóhann Pétur
Ef ég endist með þetta blogg mun ég skrifa hugrenningar mínar niður sem feitur maður. Mínar upplifanir og jafnvel tilfinningar, allt í augum stóra mannsins.

Eldri færslur

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband